
Kúrekar norðursins
Friðrik Þór Friðriksson
Heiðursgest hátíðarinnar í ár, Friðrik Þór Friðriksson, þarf vart að kynna. Hann er án efa einn þekktasti kvikmyndaleikstjóri Íslands; frumkvöðull sem með verkum sínum hefur mótað íslenska kvikmyndasögu. Mörg þekktustu verka hans eru leiknar kvikmyndir en engu að síður liggur upphaf ferils hans í tilraunamyndum og heimildamyndum, sem voru nátengdar myndlistarsenu þess tíma.
Friðrik Þór á að baki fimm heimildamyndir og er sú þekktasta Rokk í Reykjavík (1982). Skjaldborgarhátíðinni langar hins vegar að beina sjónum að minna sýndum myndum frá þessu tímabili, sem eru ekki síður merkilegar. Það eru Eldsmiðurinn (1981) og Kúrekar Norðursins (1984). Þessar myndir, eins og svo margar aðrar eftir Friðrik Þór, einkennast af ákveðnum alþýðleika, fordómaleysi, ísmeygilegum húmor og hlýju. Rætt verður við Friðrik Þór um verk hans og listformið heimildamynd í sem allra víðustum skilningi.