Burma Storybook
Corinne van Egeraat & Petr Lom
Burma Storybook fjallar um þjóð sem leitast við að finna sér leið út úr áralöngu einræðisstjórnarfari og leit eins þekktasta andspyrnuskálds landsins, hins sjötuga Maung Aung Pwint, að friði innra með sér meðan hann bíður þess að sonur sinn snúi aftur til landsins. Verkið varpar fram spurningunni hvort penninn sé máttugri en sverðið í gegn um sögu Pwint sem sat í fangelsi fyrir skrif sín og aktífisma á meðan fjölskylda hans var tvístruð og sonur hans í útlegð í Finnlandi.
Í cinema verité stíl er saga Pwint studd af kór þjóðþekktra nútíma ljóðskálda í Myanmar sem saman enduróma rödd gagnrýni og árverkni á tímum lýðræðisumbreytinga. Í þessari nýju og góðu veröld verður hið aldna skáld og fjölskylda hans táknmynd þrautseigjunnar er hann spyr „hvernig geta hjörtun okkar heilast?“. Spurningin sem hefur öðlast enn meiri vigt nú eftir að herinn hefur á ný tekið völdin og aftur komið á einræðisstjórn.