26. — 29. maí 2023
Patreksfjörður
movie theater

Skjaldborgarbíó

Skjaldborgarbíó stendur við Aðalstræti 27 á Patreksfirði (Sjá á korti) og er í daglegu tali kallað Skjaldborg. Saga hússins hófst 19. mars 1932 á fundi hjá sjálfstæðisfélaginu Skildi á Patreksfirði þar sem ákveðið var að skipa nefnd er skildi leggja fram tillögur í húsnæðismálum félagsins. Í nefndinni sátu Friðþjófur Ó. Jóhannesson, Ólafur F. Ólafsson og Ottó Guðjónsson. Snemma árs 1934 lögðu Friðþjófur og nefndin fram fullmótaða tillögu um byggingu samkomuhúss í kauptúninu. Á fundi þann 11. nóvember 1934 var tilllagan samþykkt og ákveðið að húsið skyldi heita Skjaldborg. Fyrsti fundurinn í Skjaldborg var svo haldinn þann 23. maí 1935.

Árið 1980 var Skjaldborg gerð upp að miklu leyti. Var þá ráðist í að útbúa bíóaðstöðu í húsinu. Var sú aðstaða öll til fyrirmyndar og með því besta sem þekktist á þeim tíma. Árið 2003 tók Lionsklúbbur Patreksfjarðar svo við rekstri Skjaldborgar en þá var húsið mjög illa farið að utan sem innan. Lionsmenn réðust strax í verulegar endurbætur á húsinu með það fyrir augum að koma þar aftur af stað bíósýningum sem höfðu legið niðri um árabil. Þegar endurbyggingu hússins var lokið hófust þar reglulegar bíósýningar á nýjan leik.

Samstarf Lionsklúbbsins og aðstandenda Skjaldborgar - hátíðar íslenskra heimildamynda hefur verið farsælt frá stofnun hátíðarinnar og þegar Lionsklúbburinn ákvað að ráðast í það stórvirki að safna fyrir stafrænu DCP sýningarkerfi tóku aðstandendur hátíðarinnar þátt í því ferli. Lionsklúbburinn lyfti grettistaki í söfnuninni en einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir lögðust á eitt og jafnframt fór fram hópfjármögnunarsöfnun á Karolina Fund. Árið 2016 var hið nýja stafræna sýningarkerfi svo tekið í notkun.

Það er einsdæmi á Íslandi og jafnvel á heimsvísu að sjálfboðaliðasamtök á borð við Lionsklúbbinn reki kvikmyndahús í svo fámennum bæ. Þetta þykir aðstandendum hátíðarinnar mikil fyrirmyndar samfélagsþjónusta!

Hátið íslenskra
heimildamynda

Contact

skjaldborg@skjaldborg.is

Kt: 6505090800