26. — 29. maí 2023
Patreksfjörður
woman steps out of an airplane

Ferðalagið / Gisting

Við hvetjum alla okkar gesti til að plana frekara ferðalag um Vestfirði fyrir og/eða eftir hátíð en ekki þarf að fara langt frá Patreksfirði til að bera augum margar af helstu náttúruperlum Íslands svo sem Dynjanda, Látrabjarg og Rauðasand.

Flugfélagið Ernir flýgur frá Reykjavík til Bíldudals og þaðan fer flugrúta til Patreksfjarðar en þar er einnig hægt að panta bílaleigubíla frá nokkrum bílaleigum. Flugferðin sjálf tekur milli 40-50 mínútur og svo er 30 km akstur frá Bíldudal yfir á Patreksfjörð um heiðina Hálfdán. Innritun í flug fer fram í flugstöð flugfélagsins á Reykjavíkurflugvelli sunnan megin við Icelandair Hótel Natura (áður Loftleiðir). Sjá á korti

Akstursleiðin (Sjá á korti) frá Reykjavík til Patreksfjarðar hefur styst og batnað ár frá ári síðan hátíðin var stofnuð árið 2007. Vegalengdin í dag er 392 km (þar af um 27 km af malarköflum) þar sem ekið er um Brattabrekku, Svínadal, Barðastrandarsýslu og að lokum yfir Kleifaheiði til að komast í mynni hins fallega Patreksfjarðar. Aksturstími er um 5 klst. en þá er ekki miðað við mörg stopp á leiðinni. Hinsvegar ef ferðalangar fara sér hægar geta þeir verðlaunað sig með heimsókn í náttúrupotta, á sögustaði og notið náttúrufegurðar á leiðinni.

Einnig er hægt að keyra leiðina að hluta og sigla með ferjunni Baldri frá Stykkishólmi yfir hinn fagra Breiðafjörð yfir á Brjánslæk en þaðan er svo um 40 mín akstur til Patreksfjarðar (Sjá á korti). Hægt er að fara úr ferjunni í Flatey og eiga þar dagsstund áður en haldið er áfram ferðalaginu. Baldur siglir tvisvar sinnum á sólarhring frá Stykkishólmi og vissara er að lesa tímatöfluna á heimasíða Sæferða sem og að bóka pláss fyrir ökutæki fyrirfram. Ferðalangar verða að vera komnir niður á bryggju í Stykkishólmi 30 mínútum fyrir brottför þar sem það getur tekið starfsmenn Sæferða drjúgan tíma að púsla öllum faratækjum inn í skrokk Baldurs. Hægt er að njóta útsýnisins og veitinga meðan á siglingu stendur.

Á heimasíðu markaðsstofu Vestfjarða er að finna allar helstu upplýsingar um áningarstaði, veitingastaði, ferðaþjónustuaðila og gistimöguleika.

Hátið íslenskra
heimildamynda

Contact

skjaldborg@skjaldborg.is

Kt: 6505090800